Sumarkveðja frá Starfsafli

Um leið og við hjá Starfsafli óskum öllum gleðilegs sumars langar okkur að að undirstrika mikilvægi þess að fjárfesta í því starfsfólki sem kemur inn á vinnumarkaðinn rétt yfir sumarmánuðina. 

Í mörgum tilvikum er um að ræða ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Oft vantar upp á reynslu, hæfni og mögulega vantar ákveðin réttindi og þá er ánægjulegt að segja frá því að fjöldi fyrirtækja sér hag í þvi að greiða fyrir sitt sumarstarfsfólk allskonar vinnuvélanám sem veitir réttindi sem þeir einstaklingar taka með sér áfram og geta nýtt í framtíðarstörfum.

Þá eru ótalin önnur námskeið sem fyrirtæki greiða fyrir sitt sumarstarfsfólk og eru góður grunnur fyrir öll framtíðarstörf, svo sem námskeið sem taka til vinnuverndar, gæðastjórnunar og samskipta, svo fátt eitt sé talið. Að sjálfsögðu er síðan hægt að sækja um styrk sem felur í sér endurgreiðslu á kostnaði til Starfsafls og nýta þannig sinn rétt hjá sjóðnum, sem myndast sjálfkrafa um leið og launatengd gjöld hafa verið greidd.

Fyrirtæki öðlast fullan rétt vegna starfsmanns strax á fyrsta degi í starfi og þá skiptir engu hvort viðkomandi er í fullu starfi eða tímabundnu

Í þessu samhengi er vert að hafa í huga að einstaklingur sem ekki er í fullu starfi, til að mynda nemi sem vinnur rétt yfir sumarmánuðina og kannski eitthvað með skóla, er ansi lengi að vinna sér inn fullan rétt hjá sjóðnum og nær líklega ekki að eiga fullann rétt eftir 3 ár í starfi en fullur réttur er  390.000,- kr. en þó aldrei meira en 90% af reikningi.  Hinsvegar öðlast fyrirtæki fullan rétt, það er styrk upp á 300.000,- en þó aldrei meira en 90% af reikningi, fyrir starfsmann strax á fyrsta degi í starfi og þá skiptir engu hvort viðkomandi er í fullu starfi eða tímabundnu.  Það er því mikill ávinningur fyrir það starfsfólk ef fyrirtæki fjárfestir í þeim með þeim hætti að greiða starfstengt nám sem sannarlega nýtast inn í framtíðarstörf. 

Tökum dæmi:

Sigrún er ráðin inn til fyrirtækis yfir sumarmánuðina.  Hana vantar vinnuvélaréttindi (frumnámskeið) til að geta gengt starfinu.  Fyrirtækið greiðir fyrir Sigrúnu námið sem tekur 3 daga og kostar 52.000,- Fyrirtækið sækur um á www.attin.is og fær greiddan styrk að upphæð kr. 46.800,- innan 5 virkra daga. Kostnaður fyrirtækis, umfram launakostnað, er kr. 5200,-  Sigrún, að vonum ánægð með stuðning fyrirtækisins, vinnur þetta sumar og er mögulega framtíðarstarfsmaður auk þess sem hún mun bera fyrirtækinu vel söguna. Ávinningurinn er allra. 

Athugið að viðkomandi þarf að vera komin á launaskrá þegar námið er sótt, námið þarf að vera starfstengt og hægt er að sækja um þegar skilagreinar hafa verið sendar inn svo hægt sé að sannreyna að starfsmaðurinn sé sannarlega starfsmaður þess fyrirtækis sem sækir um styrk. 

Ekki hika við að senda okkur línu ef þig langar að vita meira um það hvernig þú getur stutt við þitt starfsfólk.

Myndin með fréttinni er fengin hér