63 umsóknir og 8 milljónir í styrki
63 umsóknir voru teknar til afgreiðslu í janúar, þar af 35 sem bárust undir lok desembermánaðar og ekki náðist að afgreiða fyrir áramót. Heildarfjárhæð greiddra styrkja var um 8 milljónir króna en það er á pari við þá upphæð sem greidd var í janúar 2018. Á bak við þá upphæð eru tæplega 1500 félagsmenn en það er alltaf ánægjulegt að sjá hversu mikill fjöldi félagsmanna er á bak við þá styrki sem veittir eru til fræðslustarfs fyrirtækja.
Fjórar umsóknir voru vegna Fræðslustjóra að láni en allar voru þær frá fyrra ári. Tvær þeirra dregnar til baka vegna anna rekstraraðila og hinar tvær eru enn í vinnslu og ekki ljóst hvað verður. Í því samhengi er vert að benda á að vanda vel tímasetningu þegar farið er í verkefnið Fræðslustjóra að láni, þar sem mikilvægt er að nægur tími sé gefinn í verkefnið og svigrúm til að innleiða fræðsluáætlun svo vel sé.
Aðrar umsóknir voru vegna eigin fræðslu, brunavarna- og skyndihjálpar, endurmenntunar atvinnubílstjóra, þjónustu- og gæðanámskeiða, íslensku og námskeiða sem taka til samskipta, svo dæmi séu tekin.
Fjöldi þeirra fyrirtækja sem er að sækja í sjóðinn fer vaxandi og því er sannarlega fagnað þegar ný fyrirtæki bætast í hópinn.
Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér sjóðinn og kanna hvaða leiðir eru færar er velkomið að hafa samband við skrifstofu Starfsafls.