Hótel Klettur fær Fræðslustjóra að láni
Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við fyrirtækið Hótel Klettur ehf
Starfsmenn fyrirtækisins eru 46 talsins og er verkefnið að fullu styrkt af Starfsafli og SVS.
Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni.
Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.
Hótel Klettur er glæsilegt fyrsta flokks hótel rétt við miðbæ Reykjavíkur. Á hótelinu eru 166 herbergi, þar af 145 Standard herbergi, 18 Superior herbergi og 3 fjölskylduherbergi. Nafn hótelsins er dregið af kletti sem hefur fengið að njóta sín á fyrstu hæð hótelsins og springur þar út í gegnum vegginn. Allt útlit og innviðir hótelsins fá innblástur frá íslenskri náttúru og þá sérstaklega íslenskum bergtegundum.
Það er stefna stjórnenda fyrirtækisins að fyrirtækið hafi ávallt yfir að ráða hæfu, áhugasömu og vel þjálfuðu starfsfólki sem axlar ábyrgð og sýnir frumkvæði í starfi og geti þannig tekið virkan þátt í framþróun fyrirtækisins. Þá vilja stjórnendur að starfsfólk sé undir það búið að þjálfa sig til nýrra verkefna og mæta breyttum kröfum vegna faglegrar þróunar og nýjunga, segir í umsókn um verkefnið.
Ráðgjafi verkefnisins er Margrét Reynisdóttir hjá Gerum betur ehf en hún er margreyndur ráðgjafi á þessu sviði og þekkt fyrir námskeið sín um góða þjónustu.
Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550
Myndin er fengin að láni af vefsíðu fyrirtækisins.