Lífland fær Fræðslustjóra að láni
Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við Lífland ehf.
Fyrirtækið samanstendur af tveimur verksmiðjum, annars vegar fóðurverksmiðju á Grundartanga og hins vegar kornmyllu í Korngörðum í Reykjavík. Skrifstofur og lager eru staðsett í Brúarvogi, Reykjavík. Verslanir Líflands eru á Lynghálsi, Reykjavík, Borgarbraut Borgarnesi, Óseyri Akureyri, Ormsvöllum Hvolsvelli og Efstubraut Blönduósi. Fyrirtækið fagnaði 100 ára afmæli á síðasta ári og telur um 80 starfsmenn.
Á vefsíðu fyrirtækisins segir að fyrirtækið sé markaðsdrifið þjónustufyrirtæki sem leggur áherslu á að uppfylla þarfir og óskir viðskiptavina. Starfsemi fyrirtækisins lýtur annars vegar að þjónustu tengdri landbúnaði og tengist hins vegar hestaíþróttum, dýrahaldi, útivist og þjónustu við matvælaiðnaðinn.
Þrír sjóðir koma að verkefninu, Starfsafl, Landsmennt og SVS. Ráðgjafi verkefnisins er Ragnar Matthíasson hjá RM ráðgjöf.
Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni.
Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.
Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550
Myndin er fengin að láni af veraldarvefnum