Ekki bara nice to have….

Í gær, fimmtudag, var áhugaverð ráðstefna á Hótel Sögu sem samstarfsvettvangur um Matvælalandið Ísland hélt og bar yfirskriftina Þekking og færni innan matvælagreina.
 
Dagskráin var, eins og yfirskrift hennar bar með sér, helguð þjálfun og fræðslu og er það vel því mikilvægt er að stjórnendur hugi vel að þessum þætti í því ferli að byggja upp ánægða og færa starfsmenn sem geta valdið starfi sínu og mætt kröfum viðskiptavina.
 
Formaður stjórnar Starfsafls og framkvæmdastjóri mannauðssviðs Securitas, Hlíf Böðvarsdóttir, var ein fyrirlesara og bar hennar erindi yfirskriftina; Þjálfun í þenslu – hvernig næ ég til starfsmanna?
 
Í erindi sínu lagði hún áhersu á það að fræðsla væri vel skipulögð og stjórnendur væru með í því alla leið – að stjórnendur veiti allan sinn stuðning við þekkingaleit sinna starfsmanna.    Þá sagði hún að oft væri það svo að fyrirtækjum þætti þjálfun vera “nice to have” en hún væri “must have”.  Þá benti hún á að fyrirtæki sem væru lítil gætu vel og ættu að  sameinast öðrum um fræðslu og vísaði Hlíf m.a. í klasaverkefni  sem Starfsafl ásamt SVS hrinti í framkvæmd en það verkefni fól í sér að fimm fyrirtæki í ferðaþjónustu sameinuðust um Fræðslustjóra að láni og sögðu fyrirtækin sem þátt tóku að samstarf væri mikilvægara en samkeppni
 
Hún kom ennfremur inn á það að fyrirtæki  létu oft starfsfólk sjá um þjálfun nýliða og það væri ekki endilega besta leiðin, þar sem starfsfólk hefur ekki neina “innri þörf” til að þjálfa aðra starfsmenn. Það gæti leitt til þjálfunar sem væri handahófskennd og ekki nægileg vönduð.  Var hún þar að vísa til þjálfunar í þenslu.
 
Að síðustu ræddi Hlíf um mikilvægi rafrænnar fræðslu og hversu gagnleg slík fræðsla er í bland við aðra þjálfun.  Sagðu hún að starfsmaður sem hefur horft á þjálfunarmyndband og heyrt t.d. ákveðin hugtök, á þá í framhaldinu auðveldara með að meðtaka og læra þegar þjálfun á vettvangi á sér stað.
 
Erindi Hlífar var áhugavert og lauk hún því með því að bjóða þeim sem hefðu áhuga á að kynna sér enn frekar rafræna fræðslu, að hafa samband við sig.  Þá bendir Starfsafl á að sjóðurinn styrkir rafræna fræðslu og veitir sérstaka hvatastyrki þeim fyrirtækjum sem eru að stíga sín fyrstu skref þar.   
 
 Á myndinni er Hlíf Böðvarsdóttir, formaður stjórnar Starfsafls og framkvæmdastjóri mannauðssviðs Securitas