148 milljónir króna á fyrri helming ársins

Það er alltaf jafn áhugavert að skoða tölur yfir styrkfjárhæðir, fjölda umsókna og annað því tengt yfir ákveðin tímabil.  Það getur gefið ákveðna mynd af því sem er að gerast í fræðslu- og starfsmenntamálum á vinnumarkaði og mögulega spáð fyrir um hvað er framundan. Í ljósi þess að árið er hálfnað þá er við hæfi að skoða heildarfjárhæð greiddra styrkja á því tímabili og telur sú fjárhæð 148 milljónir króna í styrki til fyrirtækja og einstaklinga auk sértækra verkefna sem voru nokkur. 

148 milljónir króna í styrki til fyrirtækja og einstaklinga auk sértækra verkefna á fyrri helming ársins

Sé litið til síðustu tveggja ára  þá er heildarfjárhæð greiddra styrkja það sem af er ári á pari við þau ár, en hafa ber í huga að frá því í maí 2020 hefur styrkhlutfall verið 90% sem sérstakt átak vegna Covid. Engu að síður má sjá að fyrirtæki eru mörg hver mjög virk þegar kemur að starfsmenntamálum og einstaklingar eru margir hverjir mjög öflugir þegar kemur að nýtingu á sjóðnum. 

Tölur fyrri ára segja okkur jafnframt að þriðji hver einstaklingur nýtur styrkja úr sjóðnum, þá hvort heldur er í gegnum einstaklings- eða fyrirtækjastyrki.  Munar þar miklu um þann fjölda einstaklinga sem styrktur er í gegnum fyrirtækin.  Séu sértækir styrkir teknir með þá hækkar hlutfallið enn meira.  Það er sannarlega gleðilegt.  En við getum alltaf gert betur og vinnur Starfsafl sífellt að því að ná til enn fleiri fyrirtækja, því þeir sem til þekkja vita hversu miklu það getur skipt fyrir starfsmenntamál innan fyrirtækja að hafa þann stuðning sem í sjóðnum felst og því fjármagni sem hægt er að sækja til hans.  

En að uppgjöri júnímánaðar.  Heildarfjárhæð greiddra styrkja þann mánuðinn til einstaklinga og fyrirtæja var 28.4 milljónir króna.

Styrkir til fyrirtækja

21 umsókn barst frá 10 fyrirtækjum og var heildarfjárhæð greiddra styrkja 2.3 milljónir króna. Á bak við þá tölu eru 122 félagsmenn.

Styrkir til einstaklinga

Samanlögð styrkfjárhæð til einstaklinga var rétt um 26 milljónir kr. Sú fjárhæð skiptist sem hér segir:

Efling kr. 21.632.648,-

VSFK kr. 3.200.730,-

Hlíf kr. 1.249.296,-

Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér sjóðinn og kanna hvaða leiðir eru færar er velkomið að hafa samband í síma 6930097 eða með tölvupósti á lisbet@starfsafl.is Einstaklingum er bent á hlutaðeigandi stéttafélag en þar fer fram afgreiðsla styrkja til einstaklinga.

Myndin með fréttinni er fengin hér