Skeljungur hf fær Fræðslustjóra að láni

Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við Skeljung hf. Tveir sjóðir koma að verkefninu og greiða þeir hlutfallslega fyrir félagsmenn sinna stéttafélaga en hjá fyrirtækinu eru starfandi 240 einstaklingar, þar af 38 sem eru félagsmenn Eflingar.  Helmingur þeirra starfar við akstur.

Skeljungur dreifir eldsneyti til fyrirtækja sem ekki hafa tækifæri til að nálgast eldsneyti á afgreiðslustöðvum, til dæmis til sjávarútvegsins og flugfélaga. Á vefsíðu fyrirtækisins segir að viðskiptavinir Skeljungs geti treyst á 90 ára reynslu félagsins af því að afgreiða eldsneyti hratt og örugglega. Um mannauð segir; “Hjá Skeljungi hf starfar fjölbreytt flóra fólks af báðum kynjum og á öllum aldri. Mannauðurinn er mikilvægasta auðlind Skeljungs. Við berum hag starfsmanna fyrir brjósti og viljum vera í fremstu röð hvað varðar réttindi þeirra, öryggi og starfsumhverfi,,

Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni. Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins.

Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.

Á árinu 2015 tók gildi breyting á umferðarlögum sem fól í sér kröfu um endurmenntun ökumanna stórra ökutækja. Samkvæmt breytingunni eiga ökumenn sækja sér 35 stunda endurmenntun á fimm ára fresti. Það er því mikilvægt að fyrirtæki sem hafa atvinnubílstjóra innan sinna raða komi fræðslumálum í farveg og hugi vel að þeirri fræðslu sem hefur með rekstrarhæfi og réttindi að gera til viðbótar við aðra fræðslu sem styrkir þá enn frekar í starfi og undirbýr þá undir verkefni morgundagsins. Af þeim sökum er sérstaklega ánægjulegt að samþykkja fræðslustjóra að láni inn í fyrirtækið og tilhlökkun að sjá niðurstöður. Þá er vert að benda á að með stuðningi starfsmenntasjóða er tiltölulega auðvelt að kosta fræðslu fyrir starfsfólk þar sem endurgreiðslur sjóða geta verið allt að 90% af reikningi.

Ráðgjafi verkefnisins er Ragnar Matthíasson hjá RM ráðgjöf.  

Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550

Myndin er fengin hér