Restaurant Reykjavík fær Fræðslustjóra að láni

Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við Brúarveitinga sem rekur Restaurant Reykjavík, veitingastað í miðbæ Reykjavíkur.  Sérstaða veitingastaðarins er að bjóða upp á framúrskarandi matarupplifun í einu af elstu húsum bæjarins. Sérstök áhersla er lögð á það að nota íslenskt hráefni en veitingastaðurinn getur þjónustað 400 gesti með góðu móti. Því er mikilvægt að stjórnun sé fagleg og starfsfólk vel þjálfað.

Fræðslumál í dag eru ekki skipulögð en brýnt að svo sé. Að sögn rekstaraðila er mikilvægt að úr því sé bætt og efst í huga að fá út úr verkefninu áætlun sem getur stuðlað að því að efla starfsfólk svo þjónustan verði betri, vinnubrögð samræmd og þá ánægðari viðskiptavinir.

Fjöldi starfsmanna er 34 talsins og ráðgjafi er Eva Karen Þórðardóttir hjá Effect. 

Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni. 

Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.

Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550