Rauði Krossinn fær Fræðslustjóra að láni

 

.

Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við Rauða kross Íslands. Rauði krossinn á Íslandi er hluti af stærstu mannúðar- og hjálparsamtökum heims og starfið miðar að því að bregðast við og aðstoða þar sem neyðin er mest. Verkefni kauða Krossins hérlendis eru um 40 talsins, allt frá fataúthlutun til nauðstaddra á Íslandi til stærri verkefna á erlendri grundu. Starfsemin fer að miklu leyti fram í sjálfboðinni vinnu en þó eru um 70 starfsmenn á launaskrá og nær verkefnið einungis til þeirra. Þeir sjóðir sem koma að verkefninu eru Starfsafl og SVS.

Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni. Sverrir Hjálmarsson hjá Vexti og ráðgjöf mun stýra verkefninu og vera í hlutverki fræðslustjórans.  

Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.

Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550

Myndin er fengin að láni af vef Rauða krossins