Menntun og færni við hæfi – skýrsla SA

Í upphafi vikunnar gaf SA út skýrslu sem ber yfirskriftina Menntun og færni við hæfi.  Í skýrslunni segir meðal annars að gefa þurfi vinnustöðum sem námsstöðum meira vægi, gera það sýnilegt og viðurkennt til að stuðla að hugarfarsbreytingu meðal atvinnurekenda og starfsfólks.

Stjórnvöld og atvinnulífið verða að móta sameiginlegar áherslur á þessu sviði til að tryggja að samkeppnishæfni hagkerfisins, fólks og fyrirtækja, dragist ekki aftur úr því sem best gerist í nálægum ríkjum, segir í inngangsorðum skýrslunnar.

Þá segir eftirfarandi:

“Vinnuveitendur greiða iðgjöld í starfsmenntasjóði og geta á þeim grundvelli sótt um styrki til námskeiðahalds fyrir starfsmenn sína eða vegna námskeiða sem starfsmenn sækja. Mikilvægt er að fyrirtæki móti sér sína eigin fræðslustefnu, en til þess geta vinnuveitendur fengið fræðslustjóra að láni frá starfsmenntasjóðum inn í fyrirtæki og styrki til eigin fræðslu. Á vefsíðunni attin.is er að finna allar helstu upplýsingar um hvað stendur fyrirtækjum til boða í þessum efnum. Mikilvægt er að fyrirtæki séu stöðugt minnt á að nýta sér styrki í auknum mæli til að efla fræðslustarfsemi fyrirtækja og að sama skapi að styrkjakerfið sé þróað með þeim hætti að það gagnist sem best fyrirtækjum og starfsmönnum hverju sinni,,

Undir þetta getum við hér hjá Starfsafli svo sannarlega tekið en Starfsafl hefur lagt á það ríka áherslu að kynna starfsemi Starfsafls fyrir stjórnendum fyrirtækja. Innan við 150 fyrirtæki nýta sjóðinn á hverju ári og er það aðeins lítið brot þeirra fyrirtækja sem eiga rétt hjá sjóðnum, en öll fyrirtæki, óháð stærð, eiga rétt á allt að 3 milljónum króna á ársgrundvelli samanber reglur þar um. Þá hefur sjóðurinn lagt á það áherslu að fyrirtæki móti sér fræðslustefnu sem taki mið af stefnu og markmiðum fyrirtækisins en fyrirtæki sem eru með skýra stefnu, markvissa fræðslu, þjálfun og starfsþróunaráætlanir, eiga auðveldara með að mæta breytingum, bæði þeim sem eru innan skipulagsheildarinnar sem og breytingar sem koma úr rekstrarumhverfinu. Þá má einnig gera ráð fyrir minni starfsmannaveltu, skipulagðara verklagi, bættri rekstrarafkomu og samkeppnisforskoti, svo eitthvað sé nefnt.

Með tilkomu Áttarinnar, sameiginlegrar vefgáttar sjóða, hefur aðgengi fyrirtækja að starfsmenntasjóðum verið auðveldað til muna auk þess sem leitast er við að hafa regluverkið í kringum sjóðina áþekkt til einföldunar fyrir hlutaðeigandi. Án efa má gera betur og hvetur Starfsafl stjórnendur fyrirtækja til að senda fyrirspurnir og ábendingar á stjórn sjóðsins, svo sjóðirinn hafi tækifæri til að vera leiðandi en staðni ekki í regluverki eða afgreiðsluformi sem engum hentar.

Skýrsluna má lesa hér

Skrifstofa Starfsafls veitir frekari upplýsingar um styrki til fyrirtækja og þær reglur sem þar gilda.

Um Starfsafl:
Starfsafl fræðslusjóður er í eigu Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins; Eflingar, VSFK og Verkalýðsfélagsins Hlífar. Sjóðurinn varð til á grundvelli kjarasamninga árið 2000 og hlutverk hans er að styrkja félagsmenn og fyrirtækin sem þeir starfa hjá, í starfsmenntun.

Stykir til einstaklinga eru afgreiddir af stéttafélögunum en Starfsafl afgreiðir styrki til fyrirtækja. Tekjur Starfsafls eru starfsmenntaiðgjald sem er samningsbundið gjald atvinnurekenda til sjóðsins, eins og um er samið á hverjum tíma.