Marel fær Fræðslustjóra að láni

Undiritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við Marel ehf.  Að verkefninu kemur fjöldi sjóða auk Starfsafls en þeir eru SVS, Verkstjórasamband Íslands, Rafiðnaðarskólinn og Iðan fræðslusetur sem jafnframt leiðir verkefnið.
 
Ráðgjafi í verkefninu er Ragnar Matthíasson, hjá RM ráðgjöf, en hann hefur stýrt fjölda verkefna fyrir sjóðina sl. ár.
 

Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþörf fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni. Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greining og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins.  Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.

Marel er í hópi stærstu útflutningsfyrirtækja Íslands og er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á búnaði og kerfum til vinnslu.  Fyrirtækið er alþjóðlegt og hjá því starfar yfir 4.700 manns um allan heim. Starfræktar eru skrifstofur og dótturfyrirtæki í fleiri en 30 löndum, auk 100 umboðsmanna og dreifingaraðila.

 
Verkefnið sem hér um ræðir nær einungis til starfseminnar hér á landi og tekur til tæplega 500 starfsmanna. Áætluð verkefnanlok eru í september 2017.
 
Myndin er fengin að láni af vefsíðu Marels, www.marel.is