Hópur um stafræna fræðslu

Starfsafl hefur sett á laggirnar hóp um stafræna fræðslu.  Fulltrúum þeirra fyrirtækja  sem eru með slíka fræðslu sem hluta af fræðsluumhverfi síns fyrirtækis, hefur verið boðin þátttaka og verður fyrsti fundur hópsins þann 19. mars næstkomandi.  

Hópurinn er hugsaður sem samtalsvettvangur, þar sem hægt verður að ræða þessi mál heilt yfir, deila reynslu og ef til vill sameinast um námsefni þar sem það á við. Allt er opið en sama fyrirkomulag er hugsað og í kaffispjalli, engin dagskrá en fróðlegar umræður ef vel tekst til. 

Fyrir okkur hjá Starfsafli er þetta mjög mikilvægt svo við fáum innsýn í það sem fyrirtækin eru að gera. Þannig eigum við auðveldara með að mæta fyrirliggjandi þörfum en eitt af mörgum hlutverkum sjóðsins, umfram styrkveitingar, er að stuðla að þróunarverkefnum í starfsmenntun og nýjungar eða endurkoðun námsefnis.

Samkvæmt Cranet rannsókninni árið 2018 nota 71% svarenda að einhverju leyti eða öllu leyti rafrænt námsefni sem hluta aðferða í starfsþróun.  Sá hópur á einungis eftir að fara stækkandi og því mikilvægt að vanda til verka og sjá til þess að allir þurfi ekki að finna upp hjólið heldur vinna þetta saman, þar sem því verður við komið. 

Þeir sem eru með starfræna fræðslu sem hluta af sínu fræðsluumhverfi en hafa ekki fengið boð á þenna fyrsta fund, er bent á að hafa samband við okkur.

Um Starfsafl:
Starfsafl fræðslusjóður er í eigu Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins; Eflingar, VSFK og Verkalýðsfélagsins Hlífar. Sjóðurinn varð til á grundvelli kjarasamninga árið 2000 og hlutverk hans er að styrkja félagsmenn og fyrirtækin sem þeir starfa hjá, í starfsmenntun.