Hæfnigreining starfs vaktstjóra

Í morgun var fyrsti fundur stýrihóps vegna vinnu við hæfnigreiningu starfs vaktstjóra kaffihúsa- og skyndibitastaða. Verkefnið er að fullu fjármagnað af Starfsafli og Eflingu stéttafélagi en Mímir símenntun sér um framkvæmd.

Stýrihópinn mynda fræðslustjóri Eflingar og framkvæmdastjóri Starfsafls auk stjórnenda mannauðs frá Dominos, Ikea, Olís og Te og kaffi. Þeirra hlutverk er meðal annars að vera ráðgefandi sem og útvega starfsfólk til greiningarvinnunnar en sú vinna telur þrjá fundi. Það er ómetanlegt framlag þar sem vinna við hæfnigreiningu sem þessa væri ekki gerleg án þátttöku þeirra sem vinna störfin.

Hæfnigreining starfa felst í að kortleggja og skilgreina þá hæfni sem mikilvægt er að starfsmaður búi yfir til að árangur náist í starfi. Þess utan geta hæfnigreiningar starfa nýst á margvíslegan máta, s.s:

Grunnur fyrir gerð námsefnis – og námsbrauta.
Við skipulag þjálfunar og gerð fræðsluáætlana.
Við gerð starfsþróunarstefnu og starfsþróunaráætlana.
Við starfsmannaval og ráðningar.
Við gerð starfslýsinga.
Sem viðmið um frammistöðu í starfi sem nota má í frammistöðumati.

Við hæfnigreiningarnar er notuð aðferð samkvæmt viðurkenndri aðferðafræði frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem byggir á efni frá kanadíska ráðgjafafyrirtækinu Human Resource System Group.

Hæfnigreining starfa vaktstjóra er önnur af sex hæfnigreiningum sem samið hefur verið um við Mímir Símenntun. Sjá nánar hér