Fræðslustjóri að láni í Morgunblaðinu

Í Morgunblaðinu í dag birtist eftirfarandi grein eftir framkvæmdastjóra Starfsafls.

Fræðslustjóri að láni

10 ár frá undirritun fyrsta samningsins vegna Fræðslustjóra að láni.

Sífellt fleiri fyrirtæki gera sér grein fyrir mikilvægi þess að fjárfesta í fræðslu og starfsþróun starfsfólksins, þeim og fyrirtækinu til heilla. Þá þurfa að vera fyrirliggjandi leiðir sem henta, geta endurspeglað markmið og stefnu fyrirtækis og skilað árangri til lengri tíma litið. Það er lykill fyrirtækja að betra starfsumhverfi, aukinni framleiðni og bættri samkeppnisstöðu.

Fræðslusjóðir í atvinnulífinu, þar á meðal Starfsafl fræðslusjóður, hafa það skilgreinda starfssvið að efla starfs- og símenntun starfsfólks með ýmsum hætti, s.s. styrkja einstaklinga og fyrirtæki vegna starfsmenntunar, með skipulagi og stefnumótun fræðslu í fyrirtækjum og eiga frumkvæði að þróunarverkefnum, svo fátt eitt sé talið. Fræðslustjóri að láni fellur undir alla þessa verkþætti og er verkfæri sem hefur gefist mjög vel.

Í nóvember árið 2007 undirritaði Starfsafl fyrsta samninginn vegna Fræðslustjóra að láni. Þá gekk verkfærið undir heitinu Nýliðaþjálfun en tilgangurinn var sá að lána út mannauðsráðgjafa til fyrirtækja, þeim að kostnaðarlausu, sem fór m.a. yfir verkferla við nýliðamóttöku. Meginmarkmið var að auka veg menntunar og þjálfunar innan fyrirtækja á almenna markaðnum en styrkur frá Starfsmenntasjóði félagsmálaráðuneytisins og öflugt samstarf Starfsafls, Eflingar, Samtaka atvinnulífsins og fleirum gerði það að verkum að þetta var mögulegt.
Úrvinnsla þessa fyrsta samnings var til fyrirmyndar og forsvarsmenn fyrirtækjanna höfðu orð á því að aðkoma mannauðsráðgjafa hefði breytt viðhorfum millistjórnenda og annarra til símenntunar og starfsþróunar.

Á þeim 10 árum sem liðin eru frá undirritun fyrsta samningsins hefur mikið vatn runnið til sjávar og verkfærið tekið breytingum í takt við þarfir atvinnulífsins og fyrirtækjanna. Engu að síður eru meginmarkmið þau sömu, að lána ráðgjafa inn til fyrirtækja, fyrirtækjunum að kostnaðarlausu að undanskildum þeim tíma sem felst í framlögðum tíma starfsfólks sem tekur þátt hverju sinni. Hlutverk ráðgjafans er að greina með markvissum hætti fræðsluþarfir fyrirtækisins, samhliða stefnu þess, og draga upp fræðsluáætlun sem tekur til allra starfsmannahópa innan fyrirtækisins. Það gerir hann með völdu starfsfólki og stjórnendum í rýnihópum.

Eftirspurn eftir Fræðslustjóra að láni er alltaf að aukast enda sjá fyrirtæki mikinn hag í því. Þar er lausn sem er framkvæmanleg án mikils tilkostnaðar, en ferlið tekur að jafnaði örfáar vikur, frá því að lögð er inn umsókn og þar til fyrir liggur vel útfærð fræðsluáætlun.

Á þessum 10 árum hefur Starfafl fræðslusjóður undirritað hátt í 90 samninga, þar af eitt klasaverkefni sem náði til 5 fyrirtækja. Í flestum tilfellum er um að ræða samstarfsverkefni Starfsafls og annarra sjóða og fer þá eftir félagsaðild starfsmanna, hvaða sjóðir koma að hverju sinni. Að því sögðu þá hefur Starfsafl ekki alltaf aðkomu og því ljóst að samningarnir eru töluvert fleiri í heildina og er það vel.

Þá hefur það verið mikill fengur fyrir sjóðina að hafa unnið með framúrskarandi ráðgjöfum, bæði sjálfstætt starfandi og ráðgjöfum innan símenntunarstöðvanna, sem búa yfir þekkingu og reynslu á þessu sviði. Verkfærið sem slíkt hefði aldrei náð að festa sig í sessi ef ekki væri fyrir þá og gott samstarf á milli allra hlutaðeigandi.

Fræðslustjóri að láni er góð leið fyrir fyrirtæki til að koma fræðslu- og starfsmenntamálum í farveg, fá aðra sýn á fræðslustefnu fyrirtækisins, velta við steinum og horfa til framtíðar.Þá er það ekki síst mikilvægt á tímum þar rætt er um fjórðu iðnbyltinguna, þar sem störf eru að taka miklum breytingum eða hverfa alveg og því enn mikilvægara en fyrr að fjárfesta í hæfni og þróun starfsmanna sinna.

Um Starfsafl
Starfsafl – starfsmennt Samtaka Atvinnulífsins og Flóabandalagsins varð til í tengslum við kjarasamninga vorið 2000. Þá var samið um stofnun sérstaks sjóðs sem ætlað var að byggja upp menntun almennra starfsmanna fyrirtækja. Á síðasta ári voru greiddir út styrkir fyrir tæplega 200 milljónir króna.

Lísbet Einarsdóttir,
Framkvæmdastjóri Starfsafls, fræðslusjóðs.

Greinina á má lesa hér á vef Morgunblaðsins