Góður hópur gesta hjá Starfsafli

Að morgni 7. nóvembers síðastliðins tók Lísbet Einarsdóttir, framkvæmdastjóri  Starfsafls á móti góðum hópi gesta, í Húsi atvinnulífsins. Um var að ræða faghóp í mannauðsstjórnun á vegum Stjórnvísi en það var að beiðni þess hóps sem fundurinn var haldinn og sönn ánægja að verða við þeirri beiðni.

Stjórnvísi er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi með yfir 6000 virka félaga og mjög öflugt tengslanet. Kjarnastarf félagsins fer fram  í kraftmiklum faghópum félagsfólks en jafnframt stendur félagið fyrir almennum ráðstefnum, viðburðum og verðlaunum um stjórnun. 

Lísbet  var með erindi  um fræðslu fyrirtækja, mikilvægi fræðslustefnu og áætlunar með áherslu á lítil og meðalstór fyrirtæki, en samkvæmt tölum Samtaka atvinnulífsins, þá eru 80% fyrirtækja hér á landi með 50 starfsmenn eða færri og þar af 40.9% með 10 starfsmenn eða færri.

Það getur verið áskorun að stuðla að og rækta menningu þar sem fræðsla og starfsþróun fær sitt vægi í fyrirtækjum af þessari stærð, þar sem þau mál eru oft hliðarverkefni einhvers sem hefur fjölmörg önnur og jafnvel gjörólík verkefni á sínum herðum.

Það getur verið áskorun að stuðla að og rækta menningu þar sem fræðsla og starfsþróun fær sitt vægi í fyrirtækjum af þessari stærð, þar sem þau mál eru oft hliðarverkefni einhvers sem hefur fjölmörg önnur og jafnvel gjörólík verkefni á sínum herðum. En ekkert er ómögulegt og með skýrri nálgun og stuðningi starfsmenntasjóða er allt hægt.   Þá leiddi Lísbet gesti í gegnum ferlið frá gerð fræðslustefnu til mælinga.   Góður tími var gefinn fyrir umræður að erindinu loknu og bar margt áhugavert á góma og ljóst að rík þörf var á umræðu um þessi mál.

Fundarstjóri var Guðrún Finns., stjórnarmeðlimur í faghóp mannauðsstjórnunar.

Stefnt er að því að endurtaka efnið fyrir viðskiptavini Starfsafls strax á nýju ári.  

Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér sjóðinn og kanna hvaða leiðir eru færar, er velkomið að hafa samband í síma 5181850 eða með tölvupósti á [email protected]  Einstaklingum er bent á hlutaðeigandi stéttafélag, en þar fer fram afgreiðsla styrkja til einstaklinga.

Myndin með fréttinni er úr kynningu Lísbetar.