Spjallað um fræðslu í hlaðvarpi Iðunnar

Nýverið var Lísbetu Einarsdóttur framkvæmdastjóra Starfsafls boðið í hlaðvarp IÐUNNAR, Augnablik í iðnaði, til að ræða meðal annars fræðslustyrki til fyrirtækja, vefgátt sjóða og fræðslustjóra að láni, svo fátt eitt sé talið. Í kynningu Iðunnar segir;

Lísbet Einarsdóttir framkvæmdastjóri Starfsafls kom í hlaðvarp IÐUNNAR, Augnablik í iðnaði, til að ræða Áttina. Þar fórum við yfir umsóknarferlið og þá leið sem starfsmennasjóðirnir fara til að styðja sem best við fræðslustarf í fyrirtækjum.

Áttin er vefgátt fyrir fræðslustyrki og samstarfsverkefni starfsmenntunarsjóða IÐUNNAR, Starfsafls, Landsmenntar, Rafmenntar, Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks og Sambands stjórnendafélaga.

Með einni umsókn er hægt að senda samtímis á alla sjóðina og fá þannig endurgreitt fyrir félagsmenn sem þeim tilheyra. Fyrirtæki hafa þannig góða yfirsýn yfir stöðu umsókna.

Áttin býður einnig upp á fræðslustjóra að láni sem fjöldi fyrirtækja hefur nýtt sér segir Lísbet. Hún bætir því við að þá komi ráðgjafi inn í fyrirtæki á vegum sjóðanna sem greini fræðsluþörf með stjórnendum og starfsfólki. Útkoman er skýr fræðsluáætlun sem er sameign allra í fyrirtækinu.

Viðtalið er um 20 mínútur að lengd og geta áhugasamir nálgast það hér