25.400 einstaklingar í störfum tengdum ferðaþjónustu

Ferðaþjónustan er án vafa ein mikilvægasta atvinnugrein landsins.Tölur í fjölmiðlum um aukinn fjölda ferðamanna styðja m.a. við það og þá er ein birtingarmyndin tölur um kreditkortaveltu erlenda ferðamanna, svo dæmi séu tekin.  Það er einnig  áhugavert að skoða tölulegar upplýsingar  frá Hagstofu Íslands á fjölgun starfsfólks í ferðaþjónustunni.  Sé litið til þeirra talna þá störfuðu í júní sl. 25.400 einstaklingar  í störfum tengdum ferðaþjónustu og hefur því starfsfólki í greininni fjölgað um 15% á einu ári.  Sé litið til síðustu 5 ára þá hefur fjölgunin verið 66%.

3_2014-04-24 15.24 (34)
Grein í svo örum vexti þarf að horfa til og vera sér meðvituð um mikilvægi menntunar- og fræðslu svo hæfni, gæði og  fagmennska séu til staðar.  Sífellt meiri áhersla er á vinnustaðaþjálfun og aukinn vitneskja er meðal atvinnurekenda um nauðsyn starfsmenntunar innan fyrirtækja. Starfsafl hefur verið öflugur bakhjarl þegar kemur að fjármögnun fræðslu og geta fyrirtæki sótt styrki til sjóðsins, sbr. reglur þar um.  Markmið styrkjanna, hvort sem er til einstaklinga eða fyrirtækja, er að efla starfsmenntun þannig að bæði starfsmaðurinn og fyrirtækið hafi hag af.  Þá hefur Starfsafl einnig lánað út sérfræðing í vinnustaðafræðslu og óformlegri menntun sem fer yfir fræðslu- og þjálfunarmál fyrirtækisins, gerir greiningu á þörfum þess í samvinnu við stjórnendur og starfsfólk og útbýr fræðsluáætlun.  Þetta hafa fyrirtæki í ferðaþjónustu nýtt sér í auknum mæli, hvort heldur um er að ræða hótel, veitingastaði eða afþreyingarfyrirtæki, og hvetur Starfsafl fyrirtæki sem hafa áhuga eða óska frekari upplýsinga, að hafa samband.