Verkefnið „Fræðslustjóri að láni“ byggist á að lána út mannauðsráðgjafa, sérhæfðum í vinnustaðafræðslu og óformlegri menntun, til fyrirtækja. Ráðgjafinn fer yfir fræðslu- og þjálfunarmál fyrirtækisins, dregur fram það sem vel er gert, greinir þarfir fyrirtækisins og samhæfir við önnur námskeið eða viðurkenndar fræðsluleiðir.
Fræðslustjóri að láni er árangursmiðað verkfæri sem miðar að því að samhæfa og nýta lausnir sem þegar eru til, ýmist innan fyrirtækjanna og/eða hjá símenntunarstöðvum eða öðrum fræðsluaðilum.
Samstarfsaðilar Starfsafls í þessu verkefni eru 7 aðrir starfsmenntasjóðir og skilyrði er að fyrirtækið hafi starfsmenn innan Flóabandalagsins og/eða annara félaga innan Starfsgreinasambandsins og/eða VR. Sjá nánar á sameiginlegri vefgátt starfsmenntasjóðanna
Þjónustan er fyrirtækjum að kostnaðarlausu en fyrirtæki utan Samtaka atvinnulífsins greiða 10% af kostnaði.
Hvernig er sótt um fræðslustjóra að láni ?
1. Fyrirtæki, sjóðir eða ráðgjafi á vegum sjóða/setra getur haft frumkvæði að verkefninu.
2. Sótt er um verkefnið á sameiginlegri vefgátt sjóðanna.
3. Sjóðir samþykkja fjármögnun verkefnisins og ráðgjafi er valinn.
4. Samningur um verkefnið undirritaður.
5. Markmið verkefnisins er að nota rýnihópavinnu með starfsfólki til þess að skilgreina fræðsluþarfir og skrifa fræðsluáætlun fyrirtækisins.
6. Ráðgjafi vinnur með stjórnendum að því að skilgreina markmið fyrirtækisins í verkefninu.
7. Stýrihópur/fræðslunefnd úr hópi starfsmanna er settur á fót og skipað er í rýnihópa.
8. Ráðgjafi stýrir rýnihópavinnu, fer yfir niðurstöður og leggur drög að fræðsluáætlun í samvinnu við stjórnendur fyrirtækis.
9. Ráðgjafi eða fulltrúi fyrirtækisins kynnir fræðsluáætlun fyrir stjórnendum og starfsfólki fyrirtækisins.
10. Fyrirtækið hefst handa við að innleiða fræðsluáætlunina.
11. Ráðgjafi hefur samband innan tveggja mánaða og heyrir hvernig gengur að vinna með fræðsluáætlunina.
Ráðgjafar á vegum starfsmenntasjóðanna
Einungis er leitað til sjálfstæðra ráðgjafa sem hafa mikla reynslu og þekkingu, sjá nánar hér.
Þegar lögð er inn umsókn
Gott er að hafa tilbúinn (á rafrænu formi, Word eða pdf) rökstuðning í stuttu máli og upplýsingar um nöfn, kennitölur og stéttarfélagsaðild starfsmanna sem hægt er setja inn sem fylgiskjal með umsókninni.
Hægt er að fylla út umsókn hér og senda rafrænt beint til sjóðanna. Ef eitthvað er óljóst þá hafið samband við Starfsafl í síma 510 7551 / 510 7550 eða með tölvupósti á starfsafl@starfsafl.is
Hér má sjá lista yfir þau fyrirtæki sem hafa fengið Fræðslustjóra að láni frá upphafi: Listi yfir fyrirtæki