Sífellt fleiri fyrirtæki gera sér grein fyrir mikilvægi þess að fjárfesta í fræðslu og starfsþróun starfsfólksins, þeim og fyrirtækinu til heilla. Þá þurfa að vera fyrirliggjandi leiðir sem henta, geta endurspeglað markmið og stefnu fyrirtækis og skilað árangri til lengri tíma litið. Það er lykill fyrirtækja að betra starfsumhverfi, aukinni framleiðni og bættri samkeppnisstöðu.
Fræðslusjóðir í atvinnulífinu, þar á meðal Starfsafl fræðslusjóður, hafa það skilgreinda starfssvið að efla starfs- og símenntun starfsfólks með ýmsum hætti, svo sem styrkja einstaklinga og fyrirtæki vegna starfsmenntunar og með skipulagi og stefnumótun fræðslu í fyrirtækjum. Fræðslustjóri að láni fellur undir alla þessa verkþætti og er verkfæri sem hefur gefist mjög vel.
Fræðslustjóri að láni er góð leið fyrir fyrirtæki til að koma fræðslu- og starfsmenntamálum í farveg, fá aðra sýn á fræðslustefnu fyrirtækisins, velta við steinum og horfa til framtíðar. Fyrirtæki þurfa ekki að leggja út fé vegna verkefnisins þar sem það er að fullu styrkt og dregst frá rétti fyrirtækis. Athugið að framlag fyrirtækis felst í þátttöku starfsfólks og stjórnenda í verkefninu.
Eftirspurn eftir Fræðslustjóra að láni er alltaf að aukast enda sjá fyrirtæki mikinn hag í því. Þar er lausn sem er framkvæmanleg án mikils tilkostnaðar, en ferlið tekur að jafnaði örfáar vikur, frá því að lögð er inn umsókn og þar til fyrir liggur vel útfærð fræðsluáætlun.Í flestum tilfellum er um að ræða samstarfsverkefni Starfsafls og annarra sjóða og fer þá eftir félagsaðild starfsmanna, hvaða sjóðir koma að hverju sinni.
Hér má lesa nánar um Fræðslustjóra að láni, hvaða skilyrði þarf að uppfylla og hvernig umsóknarferli er háttað.
Nánari upplýsingar má fá á skrifstofu Starfsafls.